Samþykktir

Prentvæn útgáfa 

I. kafli – Almenn ákvæði

1. gr. Nafn sjóðsins og heimili

1.1 Sjóðurinn heitir Íslenski lífeyrissjóðurinn. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk sjóðsins

2.1 Hlutverk sjóðsins er að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga og tryggja þeim eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum samþykkta þessara.

2.2 Lífeyrissjóðurinn starfar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, hér eftir nefnd lífeyrislögin. Lífeyrissjóðurinn skal ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að sinna hlutverki sínu og honum er ekki heimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi.

3. gr. Skipulag

3.1 Íslenski lífeyrissjóðurinn starfar í tveimur deildum, séreignardeild og samtryggingardeild. Deildirnar eru fjárhagslega aðskildar. Báðar deildirnar lúta sömu stjórn. Útborgun og öflun réttinda lúta ákvæðum II. og III. kafla lífeyrislaganna.

4. gr. Sjóðfélagar

4.1 Allir geta orðið aðilar að sjóðnum.

4.2 Óheimilt er að neita manni um aðild að lífeyrissjóðnum á grundvelli heilsufars, aldurs, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kyns.

4.3 Þeir sem eiga inneign í séreignardeild eða réttindi í samtryggingardeild teljast sjóðfélagar. Þeir sem njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum teljast sjóðfélagar. Þeir sem njóta maka- eða barnalífeyris úr sjóðnum teljast rétthafar.

4.4 Sjóðfélagar hafa rétt til atkvæðis á fundum í hlutfalli við inneign sína í hvorri deild fyrir sig. Sjóðfélagar hafa ekki rétt til atkvæðis um málefni deildar sem þeir eiga ekki réttindi í.

5. gr. Stjórn

5.1 Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara, kosnum af sjóðfélögum .

5.2 Stjórnarmenn sitja til þriggja ára í senn. Á hverjum ársfundi skal að hámarki kjósa tvo aðalmenn. Þriðja hvert ár skal kjósa einn aðalmann. Einn varamann skal kjósa til þriggja ára á ársfundi þegar tveir aðalmenn eru kosnir.

5.3 Framboðum aðalmanna til stjórnar skal skila til stjórnar sjóðsins viku fyrir ársfund.

5.4 Hæfi stjórnarmanna skal vera í samræmi við 31. gr. lífeyrislaganna.

5.5 Stjórn lífeyrissjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Stjórn lífeyrissjóðsins skal ávaxta fé sjóðsins skv. VII. kafla lífeyrislaganna.

5.6 Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á starfsemi sjóðsins í samræmi við ákvæði lífeyrislaganna, reglugerðir settar á grundvelli þeirra og samþykktir þessar.

5.7 Stjórn sjóðsins skal hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri, bókhaldi og ráðstöfun eigna sjóðsins. Stjórnin setur sér starfsreglur og gerir tillögur til breytinga á samþykktum sjóðsins á ársfundi.

5.8 Stjórn sjóðsins skal kjósa sér formann, varaformann og skipta með sér verkum að öðru leyti. Formaður boðar til stjórnarfunda og varaformaður í forföllum hans.  Halda skal stjórnarfund ef einhver stjórnarmanna krefst þess. Um það sem gerist á stjórnarfundum skal haldin gerðarbók sem undirrituð skal af þeim er fundinn sitja.

5.9 Stjórn sjóðsins er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka nema allir stjórnarmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið, sé þess kostur. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.

5.10 Stjórn sjóðsins kemur fram fyrir hönd hans og skuldbindur hann. Stjórnin getur veitt stjórnarmönnum eða öðrum heimild til þess að skuldbinda sjóðinn, samkvæmt gildandi fjárfestingastefnu.

5.11 Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra.

5.12 Stjórn sjóðsins semur við endurskoðendur fyrir hönd sjóðsins.

5.13 Stjórn sjóðsins er heimilt að gera samning um daglegan rekstur sjóðsins. Samningur þar að lútandi skal sendur Fjármálaeftirliti eða öðru hlutaðeigandi stjórnvaldi til kynningar.

5.14 Stjórn skal móta innra eftirlit lífeyrissjóðsins og skjalfesta eftirlitsferla sbr. 29. gr. lífeyrislaganna.

5.15 Við sjóðinn skal starfa endurskoðunarnefnd. Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á skipun hennar samkvæmt lögum 3/2006, um ársreikninga.

6. gr. Ársfundur

6.1 Ársfund sjóðsins skal halda fyrir lok júní ár hvert. Rétt til setu á ársfundi eiga stjórnarmenn sjóðsins, fulltrúar þeirra aðila sem sjóðurinn hefur gert samstarfssamning við, auk sjóðfélaga og rétthafa. Stjórnin skal boða fundinn á sannanlegan hátt með þriggja vikna fyrirvara. Ársfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Skylt er stjórninni að boða til aukafundar, ef meirihluti stjórnar telur ástæðu til, eða ef fimmtíu sjóðfélagar krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni. Aukafund skal boða á sama hátt og ársfund.

6.2 Atkvæðaréttur sjóðfélaga telst eftir inneign þeirra í séreignardeild og hlutfallslegri inneign í samtryggingardeild miðað við næstliðin mánaðamót. Með hlutfallslegri inneign í samtryggingardeild er átt við hlutfallslega skiptingu eigna samtryggingardeildar m.v. skuldbindingu vegna áunninna réttinda sjóðfélaga. Atkvæðisréttur á ársfundi er varðar einstakar deildir sjóðsins er bundinn við þá aðila sem eiga réttindi eða inneign í viðkomandi deild.

6.3 Rétthafar eiga rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétt.

6.4 Dagskrá ársfundar:

6.4.1 Skýrsla stjórnar.

6.4.2 Kynning ársreiknings.

6.4.3 Gerð grein fyrir tryggingafræðilegri athugun.

6.4.4 Gerð grein fyrir fjárfestingastefnu sjóðsins.

6.4.5 Kosning stjórnar og varamanna í stjórn.

6.4.6 Kosning endurskoðanda.

6.4.7 Tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins, þegar slíkar tillögur liggja fyrir. Um tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins fer samkvæmt ákvæðum 29. greinar.

6.4.8 Laun stjórnarmanna.

6.4.9 Önnur mál. Tillögur til ályktunar sem taka á fyrir á ársfundi þurfa að berast stjórn sjóðsins eigi síðar en viku fyrir ársfund.

7. gr. Ársreikningur og endurskoðun

7.1 Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og skal ársreikningurinn gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju.

7.2 Stjórn sjóðsins og framkvæmdastjóri semja ársreikning fyrir lok aprílmánaðar næsta árs eftir reikningsárið.

8. gr. Iðgjöld

8.1 Íslenski lífeyrissjóðurinn tekur bæði við iðgjöldum til öflunar lífeyrisréttinda í sameign sbr. III. kafla lífeyrislaganna og iðgjöldum til öflunar lífeyrisréttinda í séreign sbr. II. kafla sömu laga. Sjóðurinn tekur jafnframt við iðgjöldum til öflunar lífeyrisréttinda í tilgreindri séreign. 

8.2 Íslenski lífeyrissjóðurinn tryggir sjóðfélögum lágmarkstryggingavernd sbr. ákvæði 4. gr. lífeyrislaganna, með móttöku 12% lágmarksiðgjalds.

8.3 Fjárhæð iðgjalds sem eingöngu er ætlað til öflunar lífeyrisréttinda í séreign skv. II. kafla lífeyrislaganna er frjáls.

8.4 Íslenski lífeyrissjóðurinn ákveður, í samræmi við tryggingafræðilega athugun, lágmark tryggingaverndar þannig að iðgjaldi sé varið að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í sameign skv. III. kafla lífeyrislaganna og að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í séreign skv. II. kafla sömu laga.

8.5 Ráðstöfun iðgjalds til öflunar lífeyrisréttinda í sameign ræðst af vali sjóðfélaga skv. gr. 13.1.

8.6 Iðgjaldi sem greitt er umfram iðgjald til lágmarkstryggingaverndar er sjóðfélaga frjálst að ráðstafa til öflunar lífeyrisréttinda í séreign.

8.7 Lágmarksiðgjald skv. gr. 8.2 skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. töluliðar A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Til gjaldstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga. Að öðru leyti vísast til 3. gr. lífeyrislaganna.

8.8 Iðgjaldsstofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. töluliðar A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 58. gr. þeirra laga.

8.9 Iðgjöldum til Íslenska lífeyrissjóðsins er ráðstafað til frjálsrar séreignar, bundinnar séreignar, tilgreindrar séreignar og samtryggingar. Samningur sjóðfélaga við lífeyrissjóðinn og val á leið til lágmarkstryggingaverndar sbr. gr. 13.1 ræður því hvernig iðgjaldi hans er ráðstafað.

8.10 Frjáls séreign myndast af þeim viðbótariðgjöldum sem varið er til séreignarmyndunar. Frjáls séreign er að fullu séreign sjóðfélagans. Við andlát sjóðfélaga fellur frjálsa séreignin til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Frjálsa séreignin er laus til útborgunar frá 60 ára aldri.

8.11 Bundin séreign myndast af þeim hluta iðgjalds til öflunar lágmarkstryggingaverndar sem varið er til séreignarmyndunar í leið II, III og IV sbr. gr. 13.1. Bundin séreign er að fullu séreign sjóðfélagans. Við andlát sjóðfélaga fellur bundna séreignin til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Þessi séreign skal greidd með jöfnum greiðslum frá 70 ára aldri fram til þess tíma er greiðslur hefjast úr sameignardeild samkvæmt þeirri leið er sjóðfélagi hefur valið til að tryggja lágmarkstryggingavernd.

8.12 Tilgreind séreign myndast af iðgjaldi sjóðfélaga sem greiðir skylduiðgjald til annars lífeyrissjóðs en Íslenska lífeyrissjóðsins. Tilgreind séreign er að fullu séreign sjóðfélagans. Við andlát sjóðfélaga fellur tilgreinda séreignin til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Tilgreind séreign er laus til útborgunar frá 67 ára aldri. Þó er heimilt að hefja útborgun með jöfnum greiðslum frá 62 til 67 ára aldurs. Hafi lífeyrissjóður sem samtryggingarhluti iðgjalds er greiddur til aðrar reglur fer um útborgun tilgreindrar séreignar samkvæmt þeim.

8.13 Launagreiðanda ber að halda eftir iðgjöldum starfsmanna sinna og standa skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin iðgjaldahluta. Gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar er 10. næsta mánaðar. Eigi greiðsla sér ekki stað innan þess mánaðar skal innheimta vanskilavexti þá sem Seðlabanki Íslands heimilar innlánsstofnunum hæsta að taka frá gjalddaga til greiðsludags. Launagreiðendum og sjálfstæðum atvinnurekendum ber að tilkynna lífeyrissjóðnum ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða launþegar þeirra hafa látið af störfum.

8.14 Sjóðfélagar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.

8.15 Iðgjöld sjóðfélaga, sem launagreiðandi hefur sannanlega haldið eftir af launum hans, en ekki staðið skil á til sjóðsins, svo og mótframlag launagreiðandans, skal þrátt fyrir vanskilin meta að fullu til réttinda fyrir viðkomandi sjóðfélaga við úrskurð lífeyris, enda hafi sjóðnum verið kunnugt um þessi vanskil, sbr. gr. 21.1 og gr. 22.1. Þó ber lífeyrissjóðurinn ekki ábyrgð á réttindum sjóðfélaga vegna þeirra iðgjalda, sem glatast við gjaldþrot og ábyrgðasjóður launa ber ekki ábyrgð á samkvæmt lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.

8.16 Stjórn sjóðsins er heimilt, að fenginni skriflegri beiðni sjóðfélaga, að ráðstafa inngreiddum iðgjöldum hans, upphæð sem svarar til framlags fyrir hann og maka hans, sem nemur persónutryggingum, þ.e. sjúkra-, sjúkdóma- og/eða heilsutryggingum hjá viðurkenndu vátryggingafélagi. Þó má framlag samkvæmt þessari grein ekki skerða iðgjald til lágmarkstryggingaverndar. Um útborgun fer eftir 11. gr. lífeyrislaganna.

II. kafli – Séreignardeild

9. gr. Séreignarsparnaður – almennt

9.1 Íslenski lífeyrissjóðurinn býður upp á samninga um öflun lífeyrisréttinda í séreign (séreignarsparnað) sbr. ákvæði II. kafla lífeyrislaganna og samninga um tilgreinda séreign.

9.2 Greiðsla viðbótariðgjalds í séreignardeild (frjálsa séreign) sem og greiðsla í tilgreinda séreign skulu byggjast á skriflegum samningum við sjóðinn í samræmi við ákvæði lífeyrislaganna.

9.3 Íslenska lífeyrissjóðnum er heimilt að bjóða upp á ólíkar ávöxtunarleiðir innan séreignardeildar, enda sé fjárfestingarstefna hverrar leiðar innan þess ramma er lífeyrislögin áskilja og sérhver sjóðfélagi hafi val um í hvaða leið eða leiðum inneign hans er ávöxtuð.

9.4 Rétthafa er óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innistæðu eða réttindum samkvæmt samningi um viðbótartryggingarvernd eða lífeyrisréttindi í séreign nema með samkomulagi skv. 1.-3.tölul. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997. Sjá nánar grein 18 í samþykktum þessum.

10. gr. Útgreiðsla séreignarsparnaðar

10.1 Þegar sjóðfélagi hefur náð 60 ára aldri er heimilt að greiða út frjálsa séreign ásamt vöxtum. Útgreiðslur geta þó ekki hafist fyrr en tveimur árum eftir fyrstu greiðslu iðgjalds til öflunar lífeyrisréttinda í séreign.

10.2 Verði sjóðfélagi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er 100% á hann rétt á að fá frjálsa séreign sem og tilgreinda séreign ásamt vöxtum greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á 7 árum. Með jöfnum greiðslum er átt við að sjóðfélagi fái á hverju ári þann hluta af innstæðu sinni, að meðtöldum tekjum vegna hennar, sem samsvarar fjölda þeirra ára er eftir standa af endurgreiðslutímanum. Ef örorkuprósentan er lægri en 100% lækkar árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi.

10.3 Falli sjóðfélagi frá áður en frjáls séreign eða tilgreind séreign er að fullu greidd út fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum hjúskapar- og erfðalaga. Láti sjóðfélagi ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins.

10.4 Ef sjóðfélagi er öryrki og frjáls séreign eða tilgreind séreign hans nær ekki 500.000 kr. skal sjóðurinn greiða hana út í heilu lagi ef viðkomandi sjóðfélagi fer fram á slíkt með skriflegri beiðni. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

11. gr. Uppsögn samnings um séreignarsparnað

11.1 Samningum um séreignarsparnað er hægt að segja upp með tveggja mánaða fyrirvara. Samningur fellur úr gildi ef sjóðfélagi hættir störfum, sem er forsenda fyrir greiðslu hans til Íslenska lífeyrissjóðsins, nema hann óski þess að halda áfram að greiða til sjóðsins. Uppsögn samnings um séreignarsparnað veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu.

12. gr. Flutningur séreignarsparnaðar til annars vörsluaðila

12.1 Sjóðfélögum er heimilt að gera samning um flutning innistæðu frjálsrar séreignar. Flutningur takmarkast við þá sem geta boðið upp á samning um viðbótartryggingavernd sbr. 3. mgr. 8. gr. lífeyrislaganna. Sjóðfélögum er jafnframt heimilt að gera samning um flutning innstæðu tilgreindrar séreignar. Útgreiðslufjárhæðin er inneign sjóðfélaga að frádregnum kostnaði skv. gjaldskrá sjóðsins. Kostnaður við flutning skal að hámarki vera 1% af inneign sjóðfélaga, en að lágmarki 6000 krónur.

12.2 Beiðni um flutning á inneign til annars vörsluaðila skal vera staðfest af sjóðfélaga með undirskrift. Inneign skal flutt með eingreiðslu innan tveggja mánaða eftir að beiðni berst.

III. kafli – Samtryggingardeild

13. gr. Útgreiðsluleiðir samtryggingar

13.1 Íslenski lífeyrissjóðurinn býður mismunandi kosti (leiðir I–IV) við öflun lágmarkstryggingaverndar og velja sjóðfélagar milli kosta við inngöngu í sjóðinn. Ef sjóðfélagi velur sér ekki ákveðna leið er hann sjálfkrafa settur í leið I. Frá og með 15. maí 2003 geta sjóðfélagar eingöngu valið milli leiða I og III við inngöngu í sjóðinn. Þeir sjóðfélagar sem völdu leið II eða IV, fyrir 15. maí 2003, geta þó haldið áfram að greiða til sjóðsins samkvæmt þeim leiðum.

Leið I – Lágmarkstryggingavernd er eingöngu tryggð í samtryggingu. Greiðslur ellilífeyris úr samtryggingu hefjast við 70 ára aldur. Í þessari leið er 7,99% af lágmarksiðgjaldi ráðstafað til samtryggingar og 4,01% ráðstafað til frjálsrar séreignar.

Leið II – Lágmarkstryggingavernd er tryggð með blöndu séreignar og samtryggingar. Greiðslur ellilífeyris úr samtryggingu hefjast við 75 ára aldur. Í þessari leið er 5,83% af lágmarksiðgjaldi ráðstafað til samtryggingar, 2,60% ráðstafað til bundinnar séreignar og 3,57% ráðstafað til frjálsrar séreignar.

Leið III – Lágmarkstryggingavernd er tryggð með blöndu séreignar og samtryggingar. Greiðslur ellilífeyris úr samtryggingu hefjast við 80 ára aldur. Í þessari leið er 4,27% lágmarksiðgjalds ráðstafað til samtryggingar, 4,69% ráðstafað til bundinnar séreignar og 3,04% ráðstafað til frjálsrar séreignar.

Leið IV – Lágmarkstryggingavernd er tryggð með blöndu séreignar og samtryggingar. Greiðslur ellilífeyris úr samtryggingu hefjast við 85 ára aldur. Í þessari leið er 3,27% lágmarksiðgjalds ráðstafað til samtryggingar, 6,56% ráðstafað til bundinnar séreignar og 2,17% ráðstafað til frjálsrar séreignar.

Lágmarkstryggingavernd miðast við að innborgun hefjist við 25 ára aldur.

13.2 Sjóðfélaga ber að greiða til sjóðsins það lágmarksiðgjald sem sjóðurinn áskilur til öflunar lágmarkstryggingaverndar í samræmi við þá leið sem valin er sbr. gr. 13.1.

13.3 Sjóðfélaga er heimilt að greiða til sjóðsins iðgjald umfram lágmarksiðgjald sem rennur til öflunar viðbótartryggingaverndar. Geri sjóðfélagi ekki samning um annað rennur slíkt viðbótariðgjald til öflunar lífeyrisréttinda í frjálsri séreign.

13.4 Iðgjöld sem greidd eru til samtryggingardeildar Íslenska lífeyrissjóðsins veita réttindi sem falla að ákvæðum III. kafla lífeyrislaganna. Greiðsla ellilífeyris úr samtryggingardeild hefst við 70 ára aldur eða síðar ef hluta lágmarkstryggingaverndar er aflað með bundinni séreign og er til æviloka. Réttindaöflun í samtryggingardeild ræðst af aldri sjóðfélaga við greiðslu iðgjalds, upphæð iðgjalds, lengd iðgjaldagreiðslna svo og upphafstíma lífeyrisgreiðslna. Töflur 1, 2, 3, 4 og 5 kveða á um réttindi sem aflað er með innborgun iðgjalda og skoðast sem hluti af samþykktum þessum. Miðað skal við að iðgjöld standi á öllum aldursskeiðum undir réttindum sem veitt eru samkvæmt réttindatöflum sjóðsins miðað við þær forsendur sem notaðar eru við tryggingafræðilega úttekt sjóðsins. Myndist misræmi þar á milli vegna breyttra reikniforsendna skal stjórn sjóðsins í samráði við tryggingafræðing sjóðsins gera tillögu um nýjar réttindatöflur. Í breytingum á samþykktum skal kveðið á um gildistökudag taflnanna og hefur slík breyting réttindataflna ekki áhrif á þau réttindi sem áunnist hafa fyrir gildistökudag hinna nýju taflna.

13.5 Áunnin lífeyrisréttindi í samtryggingardeild skulu taka sömu breytingum og vísitala neysluverðs til verðtryggingar. Eftir að taka lífeyris hefst skulu greiðslur frá samtryggingardeild verðtryggðar samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

14. gr. Ellilífeyrir

14.1 Mánaðarlegur ellilífeyrir er greiddur frá 70 ára aldri til æviloka. Hafi sjóðfélagi valið leið II–IV sbr. gr. 13.1 hefjast greiðslur úr samtryggingu þó ekki fyrr en greiðslum úr bundinni séreign lýkur. Réttindaöflun ræðst af innborguðu iðgjaldi, aldri sjóðfélaga við greiðslu iðgjalds og upphafi lífeyrisgreiðslna sbr. töflur nr. 1, 2, 3 og 4 í viðauka.

14.2 Sjóðfélagi sem valið hefur leið I, sbr. gr. 13.1,  getur flýtt töku ellilífeyris úr samtryggingardeild fram til 65 ára aldurs eða frestað töku ellilífeyris fram til 80 ára aldurs og lækkar þá eða hækkar fjárhæð mánaðarlegs ellilífeyris sbr. töflu 5 í viðauka. Sjóðfélagi sem hefur ekki hafið töku ellilífeyris úr samtryggingardeild getur ákveðið að hefja töku lífeyris í 50% hlutfalli hvenær sem er eftir að 65 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta ellilífeyrisréttinda sinna, sbr. 14.1.

14.3 Sjóðfélagi sem valið hefur leið II, sbr. gr. 13.1, og hefur ekki hafið töku ellilífeyris úr bundinni séreign getur ákveðið að hefja töku lífeyris úr bundinni séreign í 50% hlutfalli hvenær sem er eftir að 65 ára aldri er náð. Taka hálfs lífeyris úr bundinni séreign samkvæmt þessari grein lýkur við 75 ára aldur. Við 75 ára aldur hefst taka hálfs lífeyris úr samtryggingadeild og lýkur við 80 ára aldur. Telst sjóðfélagi þá hafa ráðstafað þeim hluta ellilífeyrisréttinda sinna, sbr. 14.1. Fjárhæð mánaðarlegs ellilífeyris vegna þess hluta sem frestað er frá 75 ára aldri hækkar í samræmi við töflu 5 í viðauka.

14.4 Sjóðfélagi sem valið hefur leið III , sbr. gr. 13.1, og hefur ekki hafið töku ellilífeyris úr bundinni séreign getur ákveðið að hefja töku lífeyris úr bundinni séreign í 50% hlutfalli hvenær sem er eftir að 65 ára aldri er náð. Taka hálfs lífeyris úr bundinni séreign samkvæmt þessari grein lýkur við 80 ára aldur.

14.5 Sjóðfélagi sem valið hefur leið IV , sbr. gr. 13.1, og hefur ekki hafið töku ellilífeyris úr bundinni séreign getur ákveðið að hefja töku lífeyris úr bundinni séreign í 50% hlutfalli hvenær sem er eftir að 65 ára aldri er náð. Taka hálfs lífeyris úr bundinni séreign samkvæmt þessari grein lýkur við 80 ára aldur.

15. gr. Örorkulífeyrir

15.1 Sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri til 70 ára aldurs ef hann verður fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira, hefur greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. tvö ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Örorkulífeyrisréttur er miðaður við áunnin lífeyrisréttindi og framreiknuð réttindi ef sjóðfélagi uppfyllir eftirfarandi skilyrði.

15.1.1 Sjóðfélagi hefur uppfyllt skyldu til lágmarkstryggingaverndar með greiðslum til sjóðsins a.m.k. þrjú ár á undanfarandi fjórum árum og greitt lágmarksiðgjald í sjóðinn sem er ekki lægra en 25.000 kr. hvert ár. Viðmiðunarfjárhæðin er verðtryggð og breytist í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitöluna 173,5 stig. Iðgjöld sjóðfélaga skulu við samanburð umreiknuð með breytingu vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

15.1.2 Sjóðfélagi hefur uppfyllt skyldu til lágmarkstryggingaverndar með greiðslum til sjóðsins a.m.k. sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili.

15.1.3 Ekki má rekja orkutap til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.

15.2 Hafi sjóðfélagi öðlast rétt til framreiknings, sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði, vegna vinnu erlendis, náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna, skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eigi síðar en sex mánuðum frá því að hann hefur aftur störf og greiðslu lágmarksiðgjalds til sjóðsins.

15.3 Ef sjóðfélagi á rétt á framreiknuðum réttindum skal til viðbótar við áunnin réttindi reikna hvaða ellilífeyrisréttindi hann hefði áunnið sér með greiðslum til 65 ára aldurs, sjá töflur 1, 2, 3 og 4. Við framreikning réttinda skal reikna með meðaltali innborgana næstu þriggja ára á undan áður en orkutapið átti sér stað, verðtryggðum með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Fullur örorkulífeyrir er greiddur m.v. 100% örorku en lífeyrisgreiðslur eru hlutfallslegar ef orkutapið er á bilinu 50%–100%.

15.4 Örorkulífeyrir er greiddur ef trúnaðarlæknir eða tryggingayfirlæknir metur orkutap að minnsta kosti 50% (örorkuprósenta). Réttur til örorkulífeyris stofnast ekki ef sjóðfélagi hefur ekki orðið fyrir tekjumissi af völdum örorkunnar.

15.5 Örorkumatið skal miða við hæfi sjóðfélaga til þess að afla sér launatekna. Hundraðshluta örorku skal ákvarða að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu umsækjanda og upplýsingum um störf og launatekjur umsækjanda á síðustu þremur árum og möguleika hans á öflun launatekna á matsdegi. Telji stjórn sjóðsins þrjú síðustu ár vera sjóðfélaganum óhagstæð vegna t.d. sjúkdómsforfalla eða atvinnuleysis er henni heimilt að leggja til grundvallar þrjú bestu árin af síðustu fimm árum.

15.6 Örorkuna skal meta eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti eða oftar ef óskir þess efnis liggja fyrir af hálfu stjórnar sjóðsins eða af hálfu örorkulífeyrisþegans. Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn, ef örorkan vex til muna og án sjálfskaparvíta frá því sem hún var metin við fyrri ákvarðanir.

15.7 Aldrei skal samanlagður örorku- og barnalífeyrir vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir vegna örorkunnar. Því til sönnunar getur stjórn sjóðsins krafist vottorða frá skattstofu, vinnuveitanda o.s.frv. Sjóðfélaga er skylt að veita sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar skv. launaframtali, sé þess óskað. Heimilt er að fresta eða fella niður greiðslur lífeyris, veiti sjóðfélagi ekki umbeðnar upplýsingar. Við mat á tekjumissi er tekið tillit til atvinnutekna, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum svo og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem sjóðfélagi nýtur vegna örorkunnar.

15.8 Við mat á því hvort sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu vegna orkutapsins skal nota sem viðmiðunartekjur meðaltal tekna sjóðfélagans síðustu þrjú almanaksár fyrir orkutapið verðbætt til úrskurðardags. Telji stjórn sjóðsins þrjú síðustu ár vera sjóðfélaganum óhagstæð, t.d. vegna sjúkdómsforfalla eða atvinnuleysis, er henni heimilt að leggja til grundvallar þrjú bestu árin af síðustu fimm árum. Viðmiðunartekjurnar taka breytingum í samræmi við breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

15.9 Að sama skapi er stjórn sjóðsins heimilt að líta fram hjá einstökum greiðslum á viðmiðunartímabilinu sem eru ekki hluti af almennum launagreiðslum. Með því er til að mynda vísað til eingreiðslna vegna starfslokasamninga eða annarra greiðslna sem víkja verulega frá fjárhæð þeirra greiðslna sem eru grundvöllur iðgjaldsgreiðslna til sjóðsins á viðmiðunartímabilinu. Í slíkum tilvikum skal heimilt að líta til allt að fimm ára fyrir orkutapið.

15.10 Heimilt er, að fengnu áliti trúnaðarlæknis, að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris, að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, sem gæti leitt til betra heilsufars og hæfni til þess að afla sér launatekna í framtíðinni.

15.11 Skylt er sjóðfélaga, sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur hans, að láta stjórn sjóðsins í té allar upplýsingar um heilsufar sitt sem nauðsynlegar eru til þess að dæma um rétt hans til örorkulífeyris.

15.12 Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrstu þrjá mánuði eftir orkutap, eða ef örorka varir skemur en sex mánuði.

15.13 Hafi sjóðfélagi valið leið II, III eða IV sbr. gr. 13.1 og fengið greiddan örorkulífeyri samkvæmt ákvæðum gr. 15.3 skal samtryggingardeild sjóðsins greiða iðgjald fyrir hann til bundinnar séreignar fram til 65 ára aldurs sem reiknað er með sama hætti og notað var til að reikna út örorkulífeyrisréttindin.

15.14 Hafi sjóðfélagi valið leið I og fengið greiddan örorkulífeyri samkvæmt ákvæðum gr. 15.3 skal ellilífeyrir ákveðinn þannig, að auk áunninna réttinda skal reikna í hlutfalli við örorkustig öflun ellilífeyrisréttinda á þeim tíma fram til 65 ára aldurs sem sjóðfélagi hefur notið örorkulífeyris. Réttindaöflun skal miðuð við sama iðgjald og notað var við framreikning örorkulífeyrisréttar, verðbætt með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

16. gr. Makalífeyrir

16.1 Við fráfall sjóðfélaga sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum, hefur greitt iðgjald til hans í a.m.k. 24 mánuði eða hefur öðlast rétt til framreiknings, á eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum.

16.2 Við fráfall sjóðfélaga er greiddur makalífeyrir til eftirlifandi maka. Fullur makalífeyrir skal aldrei greiddur skemur en í 24 mánuði en hafi makinn barn yngra en 18 ára á framfæri sínu sem sjóðfélaginn hafði áður á framfæri sínu, eða ef makinn er a.m.k. 50% öryrki og yngri en 70 ára, skal fullur makalífeyrir greiddur á meðan það ástand varir.

16.3 Fullur makalífeyrir er 50% af áunnum ellilífeyrisréttindum sjóðfélaga við andlátið.

16.4 Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru í samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný, stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar.

16.5 Réttur til framreiknings á makalífeyri fer eftir sömu reglum og lýtur sömu skilyrðum og framreikningur á örorkulífeyri.

17. gr. Barnalífeyrir

17.1 Við fráfall sjóðfélaga sem hefur uppfyllt skyldu til lágmarkstryggingaverndar með greiðslum til sjóðsins í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum, hefur öðlast rétt til framreiknings eða notið elli- og örorkulífeyris við andlát skulu börn hans og kjörbörn sem yngri eru en 18 ára eiga rétt á lífeyri til 18 ára aldurs. Sama rétt til lífeyris öðlast börn fædd eða ættleidd fyrir orkutap sjóðfélaga sem nýtur fulls örorkulífeyris. Ef örorka er metin lægri en 100% skal barnalífeyrir vera hlutfallslega lægri.

17.2 Fullur barnalífeyrir skal vera að lágmarki 5.500 kr. á mánuði með hverju barni örorkulífeyrisþega. Við andlát sjóðfélaga skal barnalífeyrir vera að lágmarki 7.500 kr. með hverju barni. Upphæðir þessar skulu breytast í janúar ár hvert í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitölu 173,5 stig. Barnalífeyrir er greiddur með hverju barni látins sjóðfélaga til 18 ára aldurs.

17.3 Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, skulu eiga rétt á barnalífeyri. Skulu lífeyrisgreiðslur vegna þeirra vera hinar sömu og vera myndu ef um börn eða kjörbörn væri að ræða.

17.4 Barnalífeyrir greiðist framfæranda barnsins.

17.5 Fullur barnalífeyrir er greiddur ef árleg lágmarksiðgjöld undanfarandi tvö almanaksár fyrir orkutap eða andlát eru a.m.k. 50.000 kr. Barnalífeyrir lækkar hlutfallslega ef iðgjaldagreiðslur eru lægri og fellur niður ef árleg lágmarksiðgjöld eru lægri en 25.000 kr. Viðmiðunarfjárhæðir þessar eru verðtryggðar og breytast í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitöluna 173,5 stig. Iðgjöld sjóðfélaga skulu við samanburð umreiknuð með breytingu vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

18. gr. Skipting réttinda á milli sjóðfélaga og maka

18.1 Sjóðfélagi getur ákveðið að skipta lífeyrisréttindum á milli sín og maka síns í samræmi við 14. grein lífeyrislaganna.

18.1.1 Að ellilífeyrisgreiðslur sem renna eiga til hans skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka. Lífeyrissjóðurinn skal þá skipta greiðslum í samræmi við ákvörðun sjóðfélagans, en þær falla niður við andlát hans. Deyi makinn eða fyrrverandi maki sem nýtur slíkra greiðslna hins vegar á undan sjóðfélaganum skulu greiðslurnar allar renna til sjóðfélagans.

18.1.2 Áður en taka lífeyris hefst en þó eigi síðar en fyrir 65 ára aldur og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka og skerðast þá réttindi sjóðfélagans sem því nemur. Heildarskuldbinding lífeyrissjóðsins skal ekki aukast við þessa ákvörðun sjóðfélagans.

18.1.3 Að iðgjald vegna hans sem gengur til að mynda lífeyrisréttindi skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð réttindi fyrir maka hans. Við ráðstöfun iðgjalds til lágmarkstryggingaverndar og viðbótartryggingaverndar skal litið svo á að iðgjaldastofni sjóðfélagans hafi verið skipt á milli hans og makans eins og iðgjaldinu.

19. gr. Tilhögun lífeyrisgreiðslna

19.1 Lífeyrir úr samtryggingardeild og bundinni séreign greiðist mánaðarlega eftir á, í fyrsta sinn næsta mánuð eftir að lífeyrisréttur myndaðist og í síðasta sinn fyrir þann mánuð er réttur til lífeyris fellur úr gildi. Stjórn sjóðsins er ekki skylt að úrskurða lífeyri lengra aftur í tímann en fjögur ár, reiknaðan frá byrjun mánaðar, er umsókn berst sjóðnum.

19.2 Ef áunnin lífeyrisréttindi eru minni en 5.000 kr. á mánuði, og ekki er um sameiningu við önnur réttindi að ræða, skal sjóðurinn greiða í einu lagi þá upphæð sem svarar til tryggingafræðilegs virðis lífeyrisréttarins, sé farið fram á slíkt með skriflegri beiðni. Fjárhæð þessi skal endurreiknuð í byrjun hvers árs í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við vísitölu 290,4 í mars 2008.

19.3 Ef bundin séreign sjóðfélaga nær ekki 500.000 kr. skal sjóðurinn greiða hana út í heilu lagi ef viðkomandi sjóðfélagi fer fram á slíkt með skriflegri beiðni. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

19.4 Við útgreiðslu á bundinni séreign sjóðfélaga sem greiðir lágmarkstryggingaverndina í aðra samtryggingardeild en Íslenska lífeyrissjóðinn gilda sömu reglur og gilda myndu fyrir séreignarhlutann í þeim lífeyrissjóði sem sjóðfélaginn greiðir samtryggingarhluta lágmarksiðgjaldsins til.

20. gr. Tryggingafræðileg athugun

20.1 Stjórn lífeyrissjóðsins skal árlega láta reikna út fjárhag sjóðsins og skal niðurstaða athugunarinnar vera hluti af reikningsskilum lífeyrissjóðsins um hver áramót sbr. 39. gr. lífeyrislaganna. Athugun skal gerð af tryggingafræðingi eða öðrum þeim sem hlotið hafa viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins til slíkra starfa.

20.2 Hrein eign lífeyrissjóðsins til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skal vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris, vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri skal miðuð við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur mið af.

20.3 Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meira en 10% munur er á milli eignaliða og lífeyrisskuldbindinga, samkvæmt gr. 20.2, er stjórn lífeyrissjóðsins skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignaliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár.

20.4 Ef eignir sjóðsins samkvæmt ársreikningi sem tryggja eiga lágmarkstryggingavernd í samtryggingardeild eru samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt hærri en áfallnar skuldbindingar skv. gr. 20.2 er sjóðstjórn heimilt að fenginni tillögu tryggingafræðings að ákveða að verja mismun eða hluta hans til aukningar frjálsrar séreignar. Aldrei skal þó slík úthlutun hagnaðar leiða til þess að tryggingafræðileg staða sjóðsins sbr. gr. 20.2 verði neikvæð. Fyrsta úthlutun hagnaðar skal framkvæmd eftir reikningsárið 2001 og á fimm ára fresti frá þeim tíma.

IV. kafli – Ýmis ákvæði

21. gr. Útsending yfirlita

21.1 Að minnsta kosti tvisvar á ári skal senda virkum sjóðfélögum yfirlit yfir greidd iðgjöld vegna þeirra. Yfirlitinu skal fylgja áskorun til sjóðfélaga um að gera án tafar athugasemdir, ef vanhöld koma í ljós á iðgjaldaskilum. Hafi athugasemdir frá sjóðfélaga, staðfestar með launaseðlum, ekki borist sjóðnum innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits og sjóðnum ekki verið kunnugt um iðgjaldakröfuna er sjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum á grundvelli iðgjalda þessara að því marki sem þau fást greidd. Samhliða yfirliti þessu skal eigi sjaldnar en einu sinni á ári senda upplýsingar um áunninn og væntanlegan lífeyrisrétt sjóðfélaga, rekstur og fjárhagsstöðu sjóðsins og breytingar á samþykktum. Sömu upplýsingar skal senda þeim sjóðfélögum sem náð hafa ellilífeyrisaldri. Sjóðnum er heimilt að senda sjóðfélögum yfirlit með rafrænum hætti óski sjóðfélagi eftir því.

22. gr. Innheimta iðgjalda

22.1 Senda skal lokaaðvörun til launagreiðanda, ef iðgjöld samkvæmt innsendum skilagreinum hans hafa verið í vanskilum í þrjá mánuði frá eindaga. Formlega innheimtu skal hefja innan 15 daga frá útsendingu lokaaðvörunar.

22.2 Iðgjöld í vanskilum, sem sanna má með innsendum launaseðlum, skulu innheimt með sama hætti og skilagreinar launagreiðenda. Lokaaðvörun til launagreiðenda skal senda innan 90 daga frá dagsetningu yfirlits samkvæmt gr. 22.1. Um innheimtu fer að öðru leyti eftir gr. 22.3.

22.3 Öllum innborgunum launagreiðanda, hvort heldur sem þær berast með nýrri skilagrein eða öðrum hætti, skal ráðstafa til greiðslu elstu ógreiddra iðgjalda og vanskilavaxta launagreiðanda og skapa réttindi samkvæmt því. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að víkja frá þessari reglu í því tilfelli þegar hafin hefur verið formleg innheimta iðgjalda í vanskilum sbr. grein 22.1 fyrir ákveðið tímabil og fullnægjandi trygging hefur fengist fyrir greiðslu iðgjalda, vanskilavaxta og innheimtukostnaðar vegna þess tímabils. Enn fremur ef lög kveða á um annað sbr. meðferð mála á greiðslustöðvunartímabili launagreiðanda. Skilagrein telst ógreidd þar til innborgun nægir til fullrar greiðslu skilagreinarinnar og áfallinna vanskilavaxta á hana.

23. gr. Flutningur réttinda

23.1 Íslenska lífeyrissjóðnum er heimilt að taka við greiðslu frjálsrar séreignar og tilgreindrar séreignar frá öðrum lífeyrissjóðum og vörsluaðilum lífeyrissparnaðar.

24. gr. Endurgreiðsla iðgjalda

24.1 Heimilt er skv. umsókn að endurgreiða inneign og réttindi erlendra ríkisborgara, sem hverfa úr sjóðnum vegna brottflutnings úr landi, enda sé slík endurgreiðsla ekki óheimil samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Heimilt er að draga frá endurgreiddu iðgjaldi, að viðbættum vöxtum, kostnað vegna tryggingaverndar sem sjóðfélaginn hefur notið og kostnað vegna umsýslu samkvæmt mati tryggingafræðings. Óheimilt er að endurgreiða lögbundin iðgjöld ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES) skv. gildandi milliríkjasamningum.

25. gr. Bann við framsali og veðsetningu lífeyris

25.1 Réttur til lífeyris verður eigi af hendi látinn né veðsettur.

26. gr. Málsmeðferð og gerðardómur

26.1 Um málsmeðferð í ágreiningsmálum sjóðfélaga gagnvart lífeyrissjóðnum gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eftir því sem við á, svo sem um birtingu ákvörðunar, rökstuðning og endurupptöku.

26.2 Vilji sjóðfélagi ekki una úrskurði stjórnar sjóðsins í máli, er hann hefur skotið til hennar, getur hann vísað málinu til gerðardóms innan þriggja mánaða frá því að úrskurðurinn var tilkynntur. Gerðardómurinn skal skipaður þremur mönnum, einum tilnefndum af sjóðfélaga, einum af lífeyrissjóðnum og oddamanni tilnefndum af Fjármálaeftirlitinu. Gerðardómurinn skal úrskurða í málinu á grundvelli þeirra krafna, sönnunargagna, málsástæðna og annarra upplýsinga sem lágu fyrir sjóðstjórn er hún tók ákvörðun um málið. Komi fram nýjar kröfur, sönnunargögn og málsástæður við meðferð málsins fyrir gerðardómi skal málinu vísað aftur til stjórnar sjóðsins til endurupptöku. Stjórn sjóðsins er þá skylt að taka málið upp að nýju til úrskurðar. Úrskurður gerðardómsins er bindandi fyrir báða aðila. Málskostnaði skal skipt milli málsaðila eftir mati dómsins, en þó skal sjóðfélagi ekki greiða meira en 1/3 málskostnaðar. Um málsmeðferð fyrir gerðardómnum fer að öðru leyti samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma.

27. gr. Um áhættudreifingu

27.1 Sjóðnum er heimilt að tryggja áhættudreifingu vegna lífeyrisskuldbindinga sinna í samræmi við 2. mgr. 21. gr. lífeyrislaganna. Sjóðnum er heimilt að kaupa tryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi og/eða gera samstarfssamning við annan lífeyrissjóð um áhættudreifingu.

28. gr. Eftirlit

28.1 Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi lífeyrissjóðsins í samræmi við lífeyrislögin og lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

29. gr. Breytingar á samþykktum

29.1 Breytingar á samþykktum þessum öðlast því aðeins gildi að þær hafi verið samþykktar með a.m.k. 2/3 hlutum greiddra atkvæða á ársfundi sjóðsins eða aukaársfundi og hlotið staðfestingu fjármálaráðuneytisins.

29.2 Tillaga um breytingar á samþykktum þarf að berast stjórn sjóðsins með skriflegum hætti tveim vikum fyrir ársfund. Tillögurnar skulu liggja frammi á skrifstofu sjóðsins í tvær vikur fyrir ársfund og það auglýst þannig að sjóðfélögum gefist kostur á að koma að athugasemdum á ársfundi.

29.3 Sjóðfélagar sem eiga eingöngu réttindi í samtryggingardeild geta ekki kosið um breytingar á II. kafla samþykktanna. Sjóðfélagar sem eiga eingöngu réttindi í séreign geta ekki kosið um breytingar á III. kafla samþykktanna.

29.4 Verði lagabreytingar sem leiða af sér nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins er stjórn sjóðsins heimilt að víkja frá gr. 29.1–29.2 og laga samþykktir sjóðsins að nýjum lögum.

30. gr. Gildistaka

30.1 Samþykktir þessar taka gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir staðfestingu fjármálaráðuneytisins.

Ákvæði til bráðabirgða:

I.
Þrátt fyrir ákvæði 5.2. skulu stjórnarmenn kosnir með svofelldum hætti á ársfundum sjóðsins 2019, 2020 og 2021:
Á ársfundi 2019 skal kjósa tvo aðalmenn til þriggja ára og einn aðalmann til tveggja ára. Á sama ársfundi skal kjósa einn varamann til þriggja ára. Á ársfundi 2020 skal kjósa tvo aðalmenn til þriggja ára og einn varamann til þriggja ára. Á ársfundi 2021 skal kjósa einn aðalmann til þriggja ára.

II.
Sjóðfélagi sem hefur hafið töku eftirlauna getur með sérstakri umsókn þar að lútandi, fram til 1. janúar 2020, lækkað hlutfall eftirlauna í 50%. Skal þá tryggingastærðfræðingur sjóðsins meta sérstaklega áhrif frestunar- og/eða flýtingar á fjárhæð eftirlauna enda gilda ekki ákvæði 14.2 og 14.3 í slíkum tilvikum. Við mat tryggingastærðfræðings skal byggja á því að tryggingafræðilegar skuldbindingar lífeyrissjóðsins breytist ekki og þannig skal byggja á sömu sjónarmiðum og liggja að baki ákvæða 14.2 og 14.3.

Prentvæn útgáfa