Fréttir

20. maí 2010

Frambjóðendur í stjórnarkjöri Íslenska lífeyrissjóðsins

Ársfundur Íslenska lífeyrissjóðsins verður haldinn miðvikudaginn 26. maí 2010  kl. 17.00 í sal A á Hilton Nordica hótel, Suðurlandsbraut 2, 108 Reykjavík.
Á fundinum skal kjósa tvo aðalmenn til tveggja ára og einn varamann til tveggja árs.
Að auki þarf að kjósa einn varamann til eins árs og kemur hann í stað Ingólfs Guðmundssonar sem sagði sig úr varastjórn sjóðsins á nýliðnum vetri.
Framboðum aðalmanna bar að skila inn til stjórnar viku fyrir ársfund.  Framboðum til varamanns skal skilað inn á ársfundinum.

Frambjóðendur í kjöri til aðalmanns í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins 26. maí 2010 eru  eftirfarandi:

  • Bragi Gunnarsson, lögfræðingur
  • Jóhann Páll Símonarson, starfsmaður Eimskip
  • Jón Eðvald Malmquist, lögmaður
  • Jón Snorri Snorrason, lektor
  • Sigríður Hanna Jóhannesdóttir, fjármála- og skrifstofustjóri
  • Snorri Gunnar Steinsson, viðskiptafræðingur

Kynning á frambjóðendum:

Bragi Gunnarsson f. 1964
Lögfræðingur hjá NBI hf. Stúdent frá MR 1984. Embættispróf í lögfræði frá HÍ 1990. Héraðsdómslögmaður 1996. Framhaldsnám í háskólanum í Lundi Svíþjóð 1998-1999 og LLM gráða þaðan. Próf í verðbréfaviðskiptum 2002. Lögfræðingur á tekju- og lagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins 1990-1997. Forstöðumaður á skattaskrifstofu embættis ríkisskattstjóra 1999-2004. Lögfræðingur hjá Landsbanka Íslands hf. og síðar NBI hf. frá 2004.  Fulltrúi sjóðfélaga í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá október 2009.

Jóhann Páll Símonarson f. 1951
Starfsmaður hjá Eimskip. Fæddur í Keflavík og er gagnfræðingur. Starfaði hjá Eimskipafélagi Íslands frá 1967, fyrst í landi en frá 1970 á sjó sem háseti og bátsmaður. Kom aftur í land 2005 og hefur síðan gegnt ýmsum störfum fyrir Eimskip. Hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjómannafélag Reykjavíkur og skoðunarmaður þess félags um árabil. Varamaður í stjórn Straums- Burðaráss Fjárfestingarbanka og varamaður í stjórn Faxaflóahafna 2006 og 2007.

Jón Eðvald Malmquist f. 1974
Lögfræðingur hjá LOGOS lögmannsþjónustu. Stúdent frá VÍ 1994 og lögfræðingur frá HÍ 1999.  Fékk héraðsdómslögmannsréttindi árið 2000.  Starfaði sem lögfræðingur hjá Ríkisendurskoðun 2000-2005 og hjá Samgönguráðuneytinu 2005-2008.  Hefur starfað sem lögmaður hjá LOGOS síðan 2008.

Jón Snorri Snorrason f. 1955
Lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Viðskipta- og hagfræðingur með framhaldsnám frá Bretlandi. Hann hefur starfað við stjórnunarstörf og kennslu frá 1984. Vann m.a. á fyrirtækjasviði Landsbankans, forstöðumaður verðbréfasviðs Kaupþings og aðstoðarframkvæmdastjóri Lýsingar. 1995-2007 framkvæmdastjóri og forstjóri Ölgerðarinnar, B&L og Öryggismiðstöðvar Íslands. Hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja. Hefur verið fulltrúi sjóðfélaga í stjórn Íslenska lífeyrissjóðins um árabil.

Sigríður Hanna Jóhannesdóttir f. 1954
Fjármála- og skrifstofustjóri hjá Alta ehf. Vann við bókhald sjóða á vegum Landsbréfa á árunum 1990-1994 og afgreiðslustjóri bakvinnslu Landsbréfa 1994-1996. Bjó í Þýskalandi 1996-1997. Vann hjá Flögu 1997-2006, fyrst sem fjármálastjóri og síðar sem skrifstofu- og starfsmannastjóri. Frá 2006 hefur hún verið fjármála- og skrifstofustjóri Alta ehf.  Hefur verið varamaður í stjórn Íslenska lífeyrissjóðins frá árinu 2009.

Snorri Gunnar Steinsson f. 1970
Viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1996. Hefur einnig próf í verðbréfaviðskiptum frá 2001.  Hóf meistaranám í fjármálum fyrirtækja samhliða vinnu í Háskóla Íslands um síðustu áramót. Hefur starfað sem sérfræðingur í einkabankaþjónustu Landsbankans frá 2001 við eignastýringu og fjármálaráðgjöf. Starfaði áður sem sérfræðingur hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum.