Fréttir

12. maí 2010

Afkoma Íslenska lífeyrissjóðsins 2009

Árið 2009 var Íslenska lífeyrissjóðnum hagstætt, þrátt fyrir talsverða óvissu á mörkuðum, og var ávöxtunin góð. Þær ákvarðanir um afskriftir á virði eigna sem þáverandi forsvarsmenn sjóðsins tóku í lok árs 2008 hafa reynst skynsamlegar. Því þurfti ekki að afskrifa eignir svo miklu næmi á árinu 2009. Óvíst er þó hverjar endanlegar endurheimtur af skuldabréfum fyrirtækja í eigu sjóðsins verða. Stjórn hans hefur því talið rétt að vera varkár í mati sínu á virði eigna, enda sé hagsmuna sjóðfélaga best gætt með þeim hætti.

Breyting á fjárfestingarstefnu

Um síðustu áramót voru gerðar breytingar á fjárfestingarstefnu sjóðsins. Meginbreytingin var sú að dregið var úr vægi innlána og vægi ríkisskuldabréfa aukið. Jafnframt tók stjórn sjóðsins þá ákvörðun að heimilt væri að leggja tiltekinn hluta hans í sérstök verkefni tengd endurreisn íslensks efnahagslífs. Að auki var þá ákveðið að LÍF IV fjárfesti eingöngu í ríkisskuldabréfum. Mat stjórnar sjóðsins er að með þessum hætti séu hagsmunir sjóðfélaga best tryggðir miðað við núverandi stöðu á fjármálamörkuðum.

Ávöxtun séreignaleiða

Íslenski lífeyrissjóðurinn er í senn séreignar- og samtryggingarsjóður og er langstærsti hluti hans í séreign. Ávöxtunarleiðir séreignar eru fjórar. LÍF I er ætluð þeim sem spara til lengri tíma og þola nokkrar sveiflur, en áhættan minnkar svo jafnt og þétt með hverri leið og í LÍF IV er leitast við að lágmarka hana.
Hrein raunávöxtun séreignaleiða sjóðsins árið 2009 var sem hér segir:

  • LÍF I: 6,8%
  • LÍF II: 5,4%
  • LÍF III: 3,6%
  • LÍF IV: 2,4%

Góð ávöxtun ríkisskuldabréfa á síðasta ári hafði jákvæð áhrif á ávöxtun, auk þess sem erlendir hlutabréfamarkaðir hækkuðu mikið. Það sem af er þessu ári hefur ávöxtun verið góð.

Góð ávöxtun samtryggingardeildar sjóðsins

Hrein raunávöxtun samtryggingardeildar sjóðsins var 3,2% sem er góður árangur, að mati stjórnar. Í lok árs voru áfallnar skuldbindingar neikvæðar um 13,3% og heildarskuldbindingar neikvæðar um 5,1%.

Tillaga um 10% skerðingu réttinda í samtryggingu lögð fyrir ársfund

Þrátt fyrir að tryggingafræðileg staða samtryggingardeildar sjóðsins sé innan lagaheimilda telur stjórn hans rétt að leggja til við ársfund að réttindi verði skert um 10%, enda telur stjórn sjóðsins að það sé í anda laga um starfsemi lífeyrissjóða. Þannig nær tryggingafræðileg staða jafnvægi. Verði jafnvægi ekki komið á í deildinni munu ný iðgjöld fara að hluta í að leiðrétta mismun eigna og skuldbindinga í stað þess að afla sjóðfélögum réttinda.

Rétt er að benda á að í samþykktum sjóðsins er ákvæði þess efnis að á fimm ára fresti skuli eignum sem eru umfram áfallnar skuldbindingar varið til þess að auka réttindi sjóðfélaga í séreign. Á grundvelli þessa ákvæðis voru í lok áranna 2001 og 2006 samtals 700 milljónir króna greiddar til sjóðfélaga, eða sem nam að meðaltali 48% til viðbótar við áunnin réttindi í samtryggingu.

Lífeyrisréttindi í samtryggingu eru verðtryggð og hafa því haldið verðgildi sínu að fullu þrátt fyrir óstöðugt umhverfi og í reynd hækkað mun meira en t.d. launavísitala frá október 2008.

Tillaga um breytingar á réttindatöflum og lágmarksiðgjöldum í samtryggingadeild lögð fyrir ársfund

Tryggingastærðfræðingar breyttu á árinu 2009 viðmiðum um lífslíkur sem byggja á reynslu áranna 2004 til 2008. Þetta kallar á hækkun á lágmarksiðgjöldum til samtryggingar og felur tillagan í sér að iðgjöld til samtryggingar hækka á kostnað frjálsrar séreignar. Hér að neðan má sjá hvernig réttindauppbyggingin breytist, verði tillagan samþykkt:

Leiðir til öflunar lágmarkstryggingaverndar

  Leið I Leið II Leið III Leið IV
  Núverandi Verður Núverandi Verður Núverandi Verður Núverandi Verður
Samtrygging 7,67% 7,99% 5,60% 5,83% 4,14% 4,27% 3,22% 3,27%
Bundin séreign     2,60% 2,60% 4,69% 4,69% 6,56% 6,56%
Frjáls séreign 4,33% 4,01% 3,80% 3,57% 3,17% 3,04% 2,22% 2,17%

Ársfundur Íslenska lífeyrissjóðsins verður haldinn 26. maí á Hilton Reykjavík Nordica, Sal A, og hefst kl. 17:00. Allir sjóðfélagar og rétthafar eiga rétt á því að sækja fundinn og greiða atkvæði um málefni sjóðsins.