Útgreiðsla úr sameign

Ellilífeyrir - sameignardeild

Mánaðarlegur ellilífeyrir er greiddur frá 70 ára aldri til æviloka. Hafi sjóðfélagi valið útgreiðsluleið II, III eða IV hefjast greiðslur úr sameign þó ekki fyrr en greiðslum úr bundinni séreign lýkur. Frjáls séreign er laus til útgreiðslu við 60 ára aldur. Sjóðfélagi sem tekur alla séreign út við 60 ára aldur þarf að hafa í huga að útgreiðsla úr sameign hefst ekki fyrr en við 70 ára aldur.

Ellilífeyrir er 56% af meðallaunum m.v. 12% framlag af launum í 40 ár og 3,5% ávöxtun.

Heimilt er að flýta töku lífeyris til 65 ára aldurs (á við um útgreiðsluleið I).

Hluti lífeyrissparnaðarins rennur í séreign.


Auk ævilangs lífeyris eftir starfslok veitir lögbundinn lífeyrissparnaður rétt til örorkulífeyris sem og maka- og barnalífeyris.

Örorkulífeyrir

Sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri til 70 ára aldurs ef hann verður fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira, hefur greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. tvö ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.

Auk örorkulífeyris ávinnur þú þér rétt til framreiknings örorkulífeyris, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Ef þú átt rétt til framreiknings hækkar mánaðarlegur örorkulífeyrir þinn þar sem framreikningur tekur mið af þeim lífeyri sem þú hefðir áunnið þér miðað við að þú hefðir greitt til sjóðsins til 65 ára aldurs. Þá ávinnur þú þér einnig rétt til ellilífeyris frá 70 ára aldri, eins og þú hefðir greitt til sjóðsins til 65 ára aldurs.

Örorkulífeyrisréttur er miðaður við áunnin lífeyrisréttindi og framreiknuð réttindi ef sjóðfélagi uppfyllir viss skilyrði.

Skilyrði framreiknings:

 • Greitt í sjóðinn í a.m.k. 3 af sl. 4 árum
 • Greitt í sjóðinn í a.m.k 6 af sl. 12 mánuðum
 • Árleg greiðsla a.m.k. 47.652* kr.
 • Orkutap er ekki rakið til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna

Fullur örorkulífeyrir er greiddur m.v. 100% örorku en lífeyrisgreiðslur eru hlutfallslegar ef orkutapið er á bilinu 50% - 100%.

 • Áframhaldandi ávinnsla ellilífeyris, m.v. 65 ára aldur
 • Viðmiðunarlaun sl. 3 ár
 • Tekjumissir
 • Örorkumatið skal miða við hæfi sjóðfélaga til þess að afla sér launatekna
 • Örorkulífeyrir er ekki hærri en tekjumissir vegna örorku
 • Ekki greiðslur fyrstu þrjá mánuði eða ef örorka varir skemur en sex mánuði

*m.v. vísitölu neysluverðs í jan. 2009


Fylgigögn með umsókn um örorkulífeyri

 • Undirrituð umsókn
 • Skírteini frá Tryggingastofnun
 • Skattskýrsla þriggja síðustu tekjuára
 • Læknisvottorð

Makalífeyrir

Andist sjóðfélagi sem naut eftirlauna eða örorkulífeyris úr sjóðnum, hefur greitt iðgjald til hans í a.m.k. 24 mánuði á undanförnum 36 mánuðum eða hefur öðlast rétt til framreiknings og lætur eftir sig maka, á eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum.

Við fráfall sjóðfélaga er greiddur makalífeyrir til eftirlifandi maka. Fullur makalífeyrir skal aldrei greiddur skemur en í 24 mánuði en hafi makinn barn yngra en 18 ára á framfæri, sem sjóðfélaginn hafði áður á framfæri sínu, eða ef makinn er 50% öryrki og yngri en 70 ára, skal fullur makalífeyrir greiddur á meðan það ástand varir. Fullur makalífeyrir er 50% af áunnum örorkulífeyri sjóðfélaga við andlátið m.v. 100% örorku.

Réttur til framreiknings á makalífeyri fer eftir sömu reglum og framreikningur á örorkulífeyri.


Barnalífeyrir

Andist sjóðfélagi, sem hefur uppfyllt skyldu til lágmarkstryggingaverndar með greiðslum til sjóðsins í a.m.k. 24 mánuði á undanförnum 36 mánuðum, hefur öðlast rétt til framreiknings eða notið elli- og örorkulífeyris við andlát, skulu börn hans og kjörbörn sem yngri eru en 18 ára eiga rétt á lífeyri til 18 ára aldurs. Sama rétt til lífeyris öðlast börn fædd eða ættleidd fyrir orkutap sjóðfélaga sem nýtur fulls örorkulífeyris. Ef örorka er metin lægri en 100% skal barnalífeyrir vera hlutfallslega lægri.

Fullur barnalífeyrir skal vera að lágmarki 10.395 kr. á mánuði með hverju barni örorkulífeyrisþega. Við andlát sjóðfélaga skal barnalífeyrir vera að lágmarki 14.174 kr. með hverju barni.

Barnalífeyrir er greiddur með hverju barni látins sjóðfélaga til 18 ára aldurs. Barnalífeyrir greiðist framfæranda barnsins.

m.v. vísitölu neysluverðs í jan. 2009.